Yfirlýsing um afsögn frá störfum fyrir Seyðisfjarðarkaupstað

Seyðisfjörður - mynd: Björgunarsveitin Ísólfur

Eftirfarandi yfirlýsingu hefur undirritaður um nýliðna helgi sent bæjaryfirvöldum:

Ég undirritaður, varabæjarfulltrúi B-lista, Framsóknar-, samvinnu- og félagshyggjufólks, hef vegna trúnaðarbrests milli mín og bæjarfulltrúa B-lista sem og samstarfsfólks þeirra í meirihluta bæjarstjórnar, tekið þá ákvörðun að segja af mér sem fulltrúi listans í bæjarstjórn.  Samhliða því segi ég mig frá þeim nefndum og ráðum sem ég hef verið valinn til af bæjarstjórn.

Ástæður þess að ég kalla það trúnaðarbrest eru m.a. þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við fjölda mála á kjörtímabilinu.  Má þar m.a. nefna langan viðbragðstíma í málefnum stofnana sveitarfélagsins í eldfimum aðstæðum fyrr á kjörtímabilinu, sem þó voru leystar fyrir rest, ólýðræðislegt og ógagnsætt ferli við ýmsar ákvarðanatökur hjá sveitarfélaginu og ekki síst það sem snýr að húsnæðismálum stofnana, auk einstefnu og áhugaleysi í atvinnumálum.
Allt þetta hef ég margsinnis gagnrýnt á fundum bæjarstjórnar.
Síðast, og í raun það sem gerði útslagið, var svo hvernig tillögu og bókun undirritaðs varðandi lokun fjarvarmaveitunnar, á fundi bæjarstjórnar þann 13. september s.l. var vísað til bæjarráðs og þar snúið í þveröfuga átt frá því sem tillögu undirritaðs var ætlað.
Ég ætla mér ekki að fara dýpra í ástæður þessarar ákvörðunnar minnar að sinni en er reiðbúinn að fara betur yfir ákveðna hluti sé þess óskað.

Að endingu vil ég beina því til kjósenda B-lista, Framsóknar-, samvinnu- og félagshyggjufólks að mér þykir miður að ég skuli hafa þurft að taka þessa ákvörðun. Því miður er þrekið ekki endalaust til að reyna að ræða mál inni í bæjarstjórn þegar ákvarðanir hafa þegar verið teknar og meirihlutinn virðist hafa það viðhorf að hlutverk bæjarstjórnar sé aðeins að afgreiða það sem bæjarráð hefur samþykkt og að fulltrúar í bæjarstjórn skuli á bæjarstjórnarfundum helst bara sitja, þegja og rétta upp hönd á réttum stöðum.

Seyðisfirði 7. október 2017

Örvar Jóhannsson

Engin athugasemd, vertu fyrst/ur...

Skildu eftir athugasemd


*