Aðsend grein – Hávaði á hafnarsvæði

Fraktskipið Hvítanes er í eigu Smyril-Line
Hvítanes

Höfundur: Elvar Snær Kristjánsson

þriðjudagur, 13. júní 17

 Aðfaranótt fimmtudagsins 8. júní rumskaði ég um eitt eftir miðnætti við einhvern skarkala. Ekki leið á löngu þangað til ég heyrði lætin aftur og fór fram að  athuga málið. Ég átti von á að finna 6 ára son minn róta í skápunum í leit að glasi undir mjólkina sína. Eftir nokkrar leit um húsið sá ég soninn hvergi. Þess í stað kom ég að tengdaföður mínum örna sér eins og menn á hans aldri þurfa gjarnan að gera um nætur. Ég skammaði hann fyrir lætin og fór aftur upp í rúm.

Þegar lætin héldu áfram rauk ég aftur fram til að fá botn í málið. Þá rek ég augun í skip merkt Smyril Line við hafnarbakkann við Austfarshúsið þar sem verið er að afferma vagna. Hávaðinn þegar dráttarbíllinn fór inn og út úr skipinu glumdi yfir lónið auk þess sem mátti heyra keðjur slást í skipið og tiltölulega hátt vélarhljóð.

Þetta stóð yfir í um það bil tvær klukkustundir eða til þrjú um nóttina. Ég nýtti tímann til að senda framkvæmdarstjóra Smyril Line á Íslandi póst um málið en þegar þessi orð eru skrifuð hefur mér ekki borist svar.

Mér leikur forvitni á að vita hvort þetta samræmist reglum um hafnarsvæði og lögreglusamþykktum bæjarins og hvort þetta tilvik hafi verið undantekning eða eitthvað sem megi búast við öðru hverju.  Eitt er alla vega á hreinu að fólk í öðrum geira hefur ekki rétt til að vinna og vera með hávaða langt fram á nætur.

Meðfylgjandi myndskeið tók ég út um stofugluggann heima hjá mér á síma. Þar má greinilega heyra lætin þó að upptakan hafi ekki greint þau öll eins og þau voru í raun.

 

Með kveðju, Elvar Snær

[embedyt] https://www.youtube.com/watch?v=TO_ZGaBeCaE[/embedyt]

Engin athugasemd, vertu fyrst/ur...

Skildu eftir athugasemd


*