Frá Seyðisfjarðarlistanum – niðurstöður íbúafundar

Helstu niðurstöður íbúafundar

Mánudaginn 10. apríl síðastliðinn hélt Seyðisfjarðarlistinn opinn íbúafund.  Lagt var upp með fjögur umræðuefni; atvinnumál, sameiningarmál, málefni eldri borgara og íbúalýðræði.  Fundargestum var skipt upp í málefnahópa þar sem hópstjórar stýrðu umræðum, skrifuðu niður helstu punkta úr umræðunum og kynntu niðurstöður hvers hóps.  Um 20 manns mættu á fundinn og var hópurinn mjög fjölbreyttur; af báðum kynjum, á ýmsum aldri og með ólíkar stjórnmálskoðanir.  Umræðurnar á fundinum voru málefnalegar og uppbyggilegar þrátt fyrir að fundargestir væru alls ekki sammála í öllum málum.  Hér á eftir viljum við greina frá því helsta sem var rætt á þessum fundi.

Atvinnumál

Ferðaþjónusta er stór hluti af atvinnulífi Seyðisfjarðar.  Enn er hún ekki að skapa nógu mörg heilsársstörf en þó er ferðatímabilið sífellt að lengjast.  Margir lýstu áhyggjum sínum og töldu að öll eggin séu komin í sömu körfuna sem og að hér þurfi að skapa meiri fjölbreytni í atvinnulífinu.  Rætt var um mikilvægi þess að hlúa að frumkvöðlum og nýsköpun en líka að hér vanti fleiri meðalstór fyrirtæki sem geti veitt töluverðum fjölda vinnu.  Ekki hafa allir áhuga eða getu til að skapa sér sín eigin atvinnutækifæri sjálfir.

Skemmtiferðaskip setja sterkan svip á bæinn en á árinu eru áætlaðar komur á fimmta tug skemmtiferðaskipa til Seyðisfjarðar.  Ekki voru allir á eitt sáttir við þennan fjölda skipa og telja að okkar litli bær þoli ekki allan þann fjölda ferðamanna sem með þeim koma.  Á móti var bent á að skipin eru að skapa tekjur fyrir bæjarfélagið og þjónustuaðila í bænum og þar með skapa atvinnu.  Vangaveltur fundarmanna snerust að því hvort við sem bæjarfélag viljum setja þak á komur skemmtiferðaskipa, hvort við viljum ákveða hvernig skip við viljum fá eða hvort við viljum enn reyna að fjölga þessum skipakomum.

Út frá þessum umræðum veltum við því fyrir okkur hvort rétt væri að skapa samráðsvettvang um skemmtiferðaskipin þar sem sjónarmið hins almenna íbúa, bæjaryfirvalda, verslunareigenda og ferðaþjónustuaðila fá að heyrast?

Húsnæðismál eru stór þáttur í þróun samfélagsins hér sem annars staðar og voru rauður þráður í gegnum alla umræðuna á fundinum og lágu þungt á fundarmönnum.  Töluverður skortur er á íbúðarhúsnæði í bænum sem veldur því að fólk sem vill setjast hér að hefur fáa kosti í þeim málum.  Sveitarfélagið vinnur að gerð reglna um stofnframlög í samræmi við lög um almennar íbúðir og að gerð húsnæðisstefnu, sameiginlega með Austurlandi öllu.  Rætt hefur verið við ýmsa aðila og þeir hvattir til að skoða alvarlega að fara í byggingarframkvæmdir en þó er ekkert í hendi þar enn sem komið er.  Fyrrgreind lög virðast vera nokkuð sniðin að höfuðborgarsvæðinu en ekki til samfélaga eins og hér þar sem markaðsvirði húsnæðis er talsvert undir byggingarkostnaði.  Ljóst er að engar töfralausnir eru á borðinu í þessum málum.

 

Sameiningarmál

Sameiningarmál voru til umræðu á fundinum en þar var lagt upp með spurningar um hvort við sem sveitarfélag viljum sameinast öðrum sveitarfélögum og ef svo er, þá hverjum?  Sitt sýndist hverjum og ýmsum kostum og göllum sameiningar var velt upp. Flestir voru þó sammála um að samgöngumál okkar setja nokkuð strik í reikninginn þar sem Fjarðarheiðin gerir okkur oft að eylandi og þá er nauðsynlegt að vera sjálfbært samfélag. Tónninn í fundarmönnum var almennt sá að það þýði þó ekki að ekki megi og eigi að skoða kosti og galla og sjá hvað það þýðir fyrir okkur að sameinast öðru/öðrum sveitarfélögum.

Í þessu máli er það vilji og skoðanir bæjarbúa sem skipta mestu máli og því ætlum við hjá Seyðisfjarðarlistanum að gera skoðanakönnun um hvað bæjarbúar vilja í þessum málum. Sú könnun verður kynnt nánar mjög fljótlega.

 

Málefni eldri borgara

Í umræðum um málefni eldri borgara komu fram áhyggjur af minnkandi heilbrigðisþjónustu hér í bænum.  Nokkrar umræður sköpuðust um það hvort það væri á einhvern hátt hægt að sporna við þessari þróun þannig að ekki verði meiri niðurskurður en nú þegar er orðinn.

Skýrt ákall kom um nauðsyn þess að fjölga bekkjum víðsvegar um bæinn, sem hægt er að tylla sér á í gönguferðum.  Ýmsar hugmyndir hafa komið fram um framkvæmdina á því, m.a. frá Lionsklúbbnum og munum við fylgjast grannt með því hverjar niðurstöðurnar verða í þeim málum.

Almennt virtist fólk frekar vera jákvætt fyrir þeirri þjónustu og aðstöðu sem eldri borgarar hafa kost á hér í bæ.  Ýmsar hugmyndir og útfærslur á þeim komu fram um samstarf félags eldri borgara og Seyðisfjarðarskóla sem gaman væri að sjá þróast áfram.

Okkur langar að vita hvort og þá hvernig hægt er að bæta þjónustu við eldri borgara hér í bæ en til að hægt sé að meta hvernig búið er að þeim er mikilvægt að raddir þeirra heyrist.  Við ætlum því að gera þjónustukönnun meðal eldri borgara til að fá að vita þeirra skoðanir, hvað er vel gert hér og hvað má betur fara.  Sú könnun mun verða send heim til íbúa bæjarins 67 ára og eldri innan skamms.

 

Íbúalýðræði

Það kom mjög sterkt fram á fundinum að íbúar kalla eftir því að fá meiri upplýsingar og meiri umræðu um hvað er að gerast í bænum.  Þeir tala um að fundargerðir séu ekki aðgengilegar og veiti litlar upplýsingar um málin sem eru til umræðu á fundum og upplifun margra er að hér ríki viss leyndarhyggja í stjórnsýslunni.

Þessu viljum við breyta.  Þar er ýmislegt í stöðunni, en okkar tillaga er sú að hér verði samin lýðræðisstefna þar sem komi fram hvernig bæjaryfirvöld ætla að koma sem bestum upplýsingum til bæjarbúa sem og að raddir íbúa fái að heyrast.  Leiðir til þess eru margar t.a. m. að fylgigögn verði almennt birt með fundargerðum nefnda og ráða, fundargerðir verði lýsandi fyrir efni funda og þær ákvarðanir sem þar eru teknar, haldnir séu íbúafundir ekki sjaldnar en tvisvar á ári, skoðanakannanir séu framkvæmdar þegar mikilvæg málefni eru undir og búin sé til íbúagátt á vefsíðu sveitarfélagsins þar sem íbúar geta komið hugmyndum sínum og sjónarmiðum á framfæri.  Við ætlum núna á næstu dögum að leggja þessar hugmyndir fram við þá flokka sem hér eru í meirihluta og vonumst til þess að viðbrögðin verði góð þannig að hægt verði að fara strax í þá vinnu að búa til lýðræðisstefnu fyrir sveitarfélagið og í framhaldinu verði íbúar betur upplýstir.

 

Hér hefur verið stiklað á stóru um þær umræður sem fram fóru á íbúafundinum.  Við vorum mjög ánægðar með hvernig til tókst og teljum að slíkir fundir séu vel til þess fallnir að koma af stað málefnalegum umræðum um samfélagið okkar sem síðan geta leitt til nýrra hugmynda og lausna.  Við stefnum því að því að hafa slíkan fund aftur með haustinu þar sem önnur málefni verða til umræðu.

f.h. Seyðisfjarðarlistans
Elfa Hlín Pétursdóttir
Hildur Þórisdóttir
Þórunn Hrund Óladóttir

Facebooksíða Seyðisfjarðarlistans

Engin athugasemd, vertu fyrst/ur...

Skildu eftir athugasemd


*