Fjarðarheiði verður lokað vegna veðurs

Bifreiðar björgunarsveitarinnar Ísólfs við erfið akstursskilyrði mynd: Björgunarsveitin Ísólfur

Samkvæmt veðurspá frá því kl. 18:00 í dag fimmtudaginn 23. febrúar er útlit fyrir að ekkert ferðaveður verði á víðast hvar á landinu á morgun föstudaginn 24. febrúar og færð spillist víða.

Á upplýsingasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að Fjarðarheiði verður lokað vegna veðurs kl. 16:00 og verði lokuð fram á kvöld.  Á sama tíma má búast við lokunum á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, Fagridal og Oddsskarði.

Enn fleiri lokanir verða víða um landið og má sjá lista yfir allar fyrirhugaðar lokanir hér.

Ferðalangar fylgist vel með upplýsingum

Búast má við að fjölmargir hyggi á ferðalög um helgina, vegna vetrarfría í öllum deildum Seyðisfjarðarskóla.

Björgunarsveitin Ísólfur vill beina þeim tilmælum til fólks sem hyggur á ferðalög að kynna sér vel veðurútlit og færð á vegum áður en lagt er í hann og búa sig vel, með auka fatnað og nesti.  Ekki vera á ferðinni þar sem varað hefur verið við hættum og ekki síst að fylgjast með fjölmiðlum, því aðstæður geta breyst fyrirvaralaust.

Upplýsingakort Vegagerðarinnar uppfærast á um 3 mínútna fresti.  Á hægri spássíu Tölvu-Skjásins er smámynd af færðarkorti Vegagerðarinnar fyrir Austurland sem á alla jafna að sýna nýjustu uppfærslu.  Með því að smella á myndina flytur vafrinn mann inn á upplýsingasíðu Vegagerðarinnar fyrir Austurland.

Upplýsingasími Vegagerðarinnar er 1777, sjálfvirkur símsvari 1779.

Einnig minnum við á vefsíðu Veðurstofunnar, vedur.is

Heimildir: vegagerdin.is

 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Engin athugasemd, vertu fyrst/ur...

Skildu eftir athugasemd


*