Nýr vefmiðill – nýtum hann vel

Ágætu Seyðfirðingar og aðrir lesendur,

Tölvu-Skjárinn hefur hafið göngu sína, sem vonandi mun verða löng og áhugaverð.

Eins og glöggir hafa eflaust áttað sig á, er Tölvu-Skjárinn byggður á gömlum merg en Frétta-Skjárinn sem foreldrar undirritaðs stóðu að útgáfu á í 30 ár var gefinn út vikulega allan þann tíma.
Þegar maður elst upp við slíka útgáfu, þá litast maður líklega að einhverju leyti af því og þannig var það í mínu tilfelli. Lengi hefur mig langað til að koma upp staðbundinni fréttaveitu á netinu sem ber dálítinn keim af útgáfu Frétta-Skjásins.  Af ýmsum ástæðum hefur þó ekki orðið af því fyrr en nú.  Trúlega hefur það ýtt mér endanlega af stað þegar tekin var sú ákvörðun í ritstjórnarstefnu Seyðisfjarðarkaupstaðar að hætta að taka við innsendum greinum á vefsíðu kaupstaðarins.  Hér er ætlunin að fylgjast með aflatölum, ásamt öðru sem er að gerast í atvinnulífinu og samfélaginu okkar í heild.

Orð eru til alls fyrst

Von mín er sú að einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök, hvort heldur sem er á Seyðisfirði eða ekki, sjái sér hag í því að nýta þennan miðil.
Ég hvet því alla gesti vefsins sem hafa eitthvað sem þeir vilja koma á framfæri.  Endilega setjið saman greinarkorn, vísur eða ljóð.  Senda inn fréttir eða hvað annað sem lífgað getur upp á síðuna og stuðlað að málefnalegri umræðu í samfélaginu.

Rétt er þó að taka fram að innsent efni er á ábyrgð höfunda.  Tölvu-Skjárinn áskilur sér rétt til að fjarlæga athugasemdir sem vega að heiðri einstaklinga, fyrirtækja eða félagasamtaka, sem og athugasemdir sem ekki eru ritaðar undir nafni.

Með von um að viðtökurnar verði sem bestar og þið verðið dugleg að lífga upp á vefinn, þá bíð ég ykkur velkomin á þennan nýja vefmiðil.

Tölvu-Skjárinn
Örvar Jóhannsson
ritstjóri
orvar[hjá]tolvuskjarinn.com

1 Athugasemd

Skildu eftir athugasemd


*